« Framundan | Aðalsíða | 99 vinir »

Af hverju ekki ESB?

10. apríl, 2007

Í kvöld var rætt um utanríkismál í málefnaþætti á RÚV. Það sýnir nú berlega hversu einangruð við á Íslandi erum, að einu málin sem þóttu þess virði að ræða, voru innflytjendamál á Íslandi og svo ESB aðild Íslands. Önnur utanríkismál þótti óþarft að ræða. Þeir sem þekkja mig vel vita auðvitað að það mál, sem Evrópusinninn Einar Örn hefur mestan áhuga á, er aðild Íslands að ESB.

Það sem vekur ítrekað furðu mína varðandi ESB umræðu á Íslandi er hversu lokaðir allir stjórnmálaflokkar, utan Samfylkingarinnar, virðast vera fyrir því að skoða ESB aðild Íslands. Allir flokkar utan Samfylkingarinnar virðast ekki hika við að halda því fram að allt sé ómögulegt í samningaviðræðum við ESB, án þess þó að hafa nokkuð fyrir sér í þeim efnum . VG virðast vera á móti ESB af því að þá getum við ekki verslað við Suð-Austur Asíu (einsog Árni Þór sagði) - alveg einsog að ESB þjóðir versli ekkert við lönd utan ESB. Aðrir flokkar virðast aðallega vera á móti ESB aðild vegna þess að þeir gefa sér þær forsendur að við munum ávallt ná mjög slæmum árangri í samningaviðræðum um aðild að ESB.

Umræður um ESB hjá öðrum flokkum virðast algjörlega taka mið af því að þeir flokkar gefa sér þær forsendur að við munum engum árangri ná með okkar mál í aðildaviðræðum við ESB. Allir eru sannfærðir að aðildaviðræður verði einhver algjör einstefna, þar sem ESB fær öllu fram, kvótinn verði ákveðinn frá Brussel og svo framvegis. Aðeins einn flokkur vill láta á það reyna hvað aðildaviðræðurnar skila okkur. Það er Samfylkingin. Ég bara get ekki fyrir mitt litla líf skilið af hverju fólk er á móti þeirri stefnu Samfylkingarinnar. Í stað þess að gefa sér eilíft neikvæðar forsendur fyrir árangri að aðildarviðræður, þá vill Samfylkingin láta á það reyna. Í stað þess að tala bara stanslaust um neikvæðu hliðarnar á ESB aðild, þá vill Samfylkingin **láta reyna á það hvaða jákvæðu áhrif ESB aðild getur haft fyrirÍsland.

Takið eftir því að stefnan Samfylkingarinnar er ekki að ganga inní ESB. Stefnan er að skilgreina það, sem við viljum ná útúr aðildaviðræðum, fara í þær, sjá hvaða árangri við náum útúr þeim og leggja svo niðurstöðurnar fyrir dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hvað er að þessu?

Ef allt verður ómögulegt, þá einfaldlega fellum við samninginn. Ef við hins vegar getum náð árangri með okkar mál og menn telji að það sé til dæmis hagstæðara að vera með evru í stað krónu, þá samþykkjum við aðildina. Þetta er ekki svo flókið.

Er það ekki gáfulegra að Íslendingar fái að sjá hverju aðildaviðræður geta skilað okkur? Er það okkar í hag að besservisserar í öllum hornum reyni að skálda það upp hvað ESB mun segja í aðildaviðræðum? Væri það ekki frekar þjóðinni til hagsbóta að sjá hvað við fáum í raun útúr aðildaviðræðum?

27 Evrópuþjóðir eru hlutar af ESB, þar á meðal allar stærstu þjóðirnar. Flestar aðrar þjóðir vilja innöngu. Af hverju ekki Íslendingar? Af hverju erum við svona spes?

Já, en horfið á Noreg öskra þá andstæðingar ESB. Já, horfum á Noreg. Þar fékk fólkið að ákveða hvort það vildi aðgang að ESB. Þar fór ríkisstjórnin í aðildaviðræður og lagði svo það í dóm kjósenda hvort að hag Noregs væri betur borgið innan ESB eða utan. Nákvæmlega það sama og t.d. Svíar og Finnar gerðu. Svíar og Finnar sögðu já - Norðmenn nei. Af hverju fá Íslendingar einir þjóða ekki einu sinni að ákveða hvort þeir vilji vera í ESB?

Af hverju þurfum við að láta stjórnmálamenn hafa vit fyrir okkur? Af hverju getum við ekki treyst þjóðinni til að ákveða svona gríðarlega stórt mál? Það er fráleitt að láta þetta ráðst eftir flokkalínum. Hægri- og vinstrimenn vilja aðild að ESB. Þeir hægri menn, sem vilja þó aðild (einsog gríðarlega margir í viðskiptalífinu) geta hins vegar ekkert gert þar sem að flokkurinn hefur ákveðið að vera á móti ESB.

Eina lausnin á þessum deilum er að fara í aðildaviðræður, sjá hvaða árangri við náum og leyfa svo þjóðinni að ákveða. Alveg einsog hinar Norðurlandaþjóðirnar hafa haft tækifæri til. Við Íslendingar eigum það líka skilið.

* * *

(Ég kenni svo aumingjunum í Roma um það að ég skuli að vera að skrifa um pólitík í stað þess að vera að horfa á fótbolta einsog ég ætlaði mér.)

* * *

(Hér á eftir fylgir röfl um atvinnuleysistölur í ESB - kannski ekki neitt gríðarlega áhugavert fyrir flesta).

Það er fátt sem fer meira í taugarnar á mér en síendurteknar rangfærslur varðandi ESB. Allir Íslendingar virðast hafa lært einhverja sleggjudóma um ESB, sem að fólk endurtekur í sífellu án þess að hafa nokkurt fyrir sér í því efni.

Eitt af því, sem heyrðist í framboðsþættinum á RÚV var að við ættum ekkert erindi inní ESB, þar sem að ástandið þar væri svo slæmt og sérstaklega það að atvinnuleysið í ESB löndunum væri alls staðar 10-15%. Þessar tölur hef ég heyrt ítrekað frá andstæðingum ESB

Látum það vera hversu fáránlegt það er að gefa í skyn að atvinnuleysi á Íslandi myndi verða fyrir áhrifum af atvinnuleysi í öðrum ESB löndum umfram þau áhrif, sem að frjálsar ferðir vinnuafls með EES, hefur (til að mynda, þá er ]atvinnuleysi í ríkjum Bandaríkjanna](http://money.cnn.com/pf/features/lists/state_unemployment/index.html) frá 2,0% uppí 7,5%)

En málið er hins vegar að ATVINNULEYSI Í ESB LÖNDUNUM ER EKKI 10-15%! Plís, þjóðrembur og andstæðingar ESB - hættiði að endurtaka þessa vitleysu!

Samkvæmt tölum frá Eurostat þá eru þetta atvinnuleysistölur fyrir ESB löndin (sjá heimild hér - PDF skjal)

Danmörk: 3,4%
Holland: 3,5%
Írland: 4,4%
Kýpur 4,5%
Austurríki: 4,5%
Slóvenía: 4,7%
Eistland: 4,9%
Lúxembúrg 5,0%
Bretland: 5,4%
Litháen: 5,7%
Lettland: 5,8%
Tékkland: 6,4%
Ítalía: 6,5%
Malta: 6,7%
Svíþjóð: 6,7%
Finnland: 7,0%
Danmörk: 7,1%
Rúmenía: 7,3%
(Meðaltal allra þjóðanna): 7,4%
Portúgal: 7,5%
Belgía: 7,7%
Ungverjaland: 7,0%
Búlgaría: 8,2%
Grikkland: 8,6%
Spánn: 8,6%
Frakkland: 8,8%
Slóvakía: 11,0%
Pólland: 11,8%

Talnaglöggir einstaklingar geta séð atvinnuleysið er ekki 10-15% í ESB löndunum. Mesta atvinnuleysið er hjá tveimur þjóðum, sem eru tiltölulega nýgengnar í ESB eftir hræðilega efnhagsstjórn sósíalista í áratugi. Það eru Pólland og Slóvakía, sem eru með 11-12% atvinnuleysi. Þannig að af 27 ESB þjóðum eru 25 þjóðir með atvinnuleysi undir 9%. 8 þjóðir eru með 5% atvinnuleysi eða minna.

En andstæðingar vilja auðvitað alltaf reyna að benda á það versta í ESB. Þegar að kemur að ESB aðild þá fara menn allt í einu að bera okkur saman við Pólland og Portúgal í stað þess að bera okkur saman við þau lönd, sem við viljum vanalega bera okkur saman við. Sem eru einmitt líka flest innan ESB.

Einar Örn uppfærði kl. 21:34 | 1084 Orð | Flokkur: Stjórnmál



Ummæli (19)


vildi íslandshreyfingin ekki sækja strax um aðild. þannig að samfylkingin er ekki ein

hj sendi inn - 10.04.07 22:08 - (Ummæli #1)

Jú, enda er stefnuskrá þess framboðs nánast einsog ljósrit af stefnuskrá Samfylkingarinnar. :-)

Einar Örn sendi inn - 10.04.07 23:04 - (Ummæli #2)

Vel mælt Einar. Þó að ég sé nú ekki mikill evrópusinni þá er Samfylkingin eini flokkurinn með vitræna stefnu varðandi ESB.

Sem betur fer þá liggur ekkert á í þessum efnum. Það mun jú taka mörg ár fyrir okkur að verða tæk inn í ESB. “Þökk” sé arfaslakri efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar.

Gulli sendi inn - 10.04.07 23:11 - (Ummæli #3)

Mig langar að vita kostina og gallana við að ganga í ESB, ég bara veit nefnilega ekki nógu mikið um þetta allt til að mynda mér skoðun.

Kata sendi inn - 10.04.07 23:32 - (Ummæli #4)

Málið, Kata, er að við vitum ekki nákvæmlega kostina og gallana fyrr en við sækjum um aðild.

Og Gulli, við getum vel farið inní ESB strax - þessi mál sem þú talar um fjalla aðallega um evru aðild.

Einar Örn sendi inn - 10.04.07 23:34 - (Ummæli #5)

ég myndi nú telja að við búum við réttarríki og lýðræði þegar við kjósum okkur fulltrúa á þing.

Væri nú skrautlegt ef við tækjum hafnafjörðin á þetta í hvert einasta mál og þyrftum að kjósa um allar ákvarðanir stjórnvalda. (mér finnst að vísu gott og gilt að hafnfirðingar nýttu neitunarvaldið með álverið.. en það er önnur saga)

Síðan hefur verið að störfum nefnd um evrópumál sem deildarforseti minn sem er meistari Bryndís Hlö hefur setið í og skilaði nefndin af sér skýrslu núna 13 mars sem ég er að fara að stúdera núna í fyrstu vorlotu meðal annars. http://forsaetisraduneyti.is/utgefid-efni/nr/2558

ég tel alls ekki rétta lausn að láta þjóðina kjósa um svona málefni án þess að tékka á kóng né prest. Svo ég vitni í hana kötu hér að ofan; “ég bara veit nefnilega ekki nógu mikið um þetta allt til að mynda mér skoðun.”

Ég veit ekki næstum nóg um þetta mál en ég veit að hinn almenni borgari (ég og kata) verður ekkert frekar upplýstur með aðildarviðræðum.

Ef hlutirnir væru svona einfaldir væri ég eflaust gift honum björgúlfi.

majae sendi inn - 10.04.07 23:55 - (Ummæli #6)

Ég er alveg sammála þér Einar, fyrir utan það að fyrir mitt leyti eigum við ekki að fara í þessar viðræður uppá ganni, það á ekki að fara í þær nema við ætlum okkur þangað inn, en þetta er tómt mál að tala um, vegna þess að stjórnarskráin okkar bannar þessa aðild. Áður en það er hægt að fara að hugsa um aðild þarf að laga þennann danska snepil sem er stjórnarskráin okkar.

elmar sendi inn - 11.04.07 01:02 - (Ummæli #7)

Sem almennur neytandi þá er ég fylgjandi því að vera í ESB, þar sem að tollar myndu þá falla niður.

Hins vegar er sjávarútvegurinn náttúrulega helsti gallinn á inngöngu Íslands í ESB. Vísa í eldgamla grein hérna [skip.is] þar sem segir m.a.:

„Aðild að ESB hefði í för með sér að við misstum forræðið yfir sjávarauðlindinni sem er mikilvægasta auðlind okkar. Útflutningsverðmæti sjávarafurða nemur yfir 60% af verðmæti vöruútflutnings landsmanna.”

Þarna yrðum við eflaust af talsverðum tekjum, ef við afsölum yfirráðum yfir stjórn fiskveiða á miðum okkar. Þetta er nokkuð sem að margar aðildarþjóðir ESB þurftu ekki að hafa áhyggjur af áður en þær gerðust aðildarþjóð ESB.

En kostirnir eru auðvitað margir, áðurnefndir tollar, fjárls innflutningur á landbúnaðarvörum (sem myndi eflaust koma niður á bændum, en reynast neytendum ágætlega).

Svo er þráður hérna [malefnin.com] sem fer aðeins yfir kostina og gallana. Þessi þráður skýrir þetta alls ekki, en fyrir þá sem vita nákvæmlega ekkert um þetta ESB rifrildi þá gæti verið ágætt að kíkja á þetta.

Halldór sendi inn - 11.04.07 03:35 - (Ummæli #8)

Væri nú skrautlegt ef við tækjum hafnafjörðin á þetta í hvert einasta mál og þyrftum að kjósa um allar ákvarðanir stjórnvalda. (mér finnst að vísu gott og gilt að hafnfirðingar nýttu neitunarvaldið með álverið.. en það er önnur saga)

Mér finnst alveg magnað, Maja hvað mörg af flokksistkynum þínum í Sjálfstæðisflokknum hafa litla trú á einstaklningum, því þeir treysta honum ekki til að kjósa um mikilvæg málefni.

Málið er bara að ESB aðild klýfur allar flokkslínur. Ég þekki fullt, FULLT af Sjálfstæðismönnum sem vilja ESB aðild, en geta lítið gert þar sem að Davíð ákvað í einhverju kasti að ESB aðild væri bara fyrir geðveika. Þetta er einfaldlega of stórt mál til að láta það ráðast af flokkslínum.

Ég veit ekki næstum nóg um þetta mál en ég veit að hinn almenni borgari (ég og kata) verður ekkert frekar upplýstur með aðildarviðræðum.

Jú víst! Heldurðu að Hafnfirðingar viti ekki miklu, miklu meira um álverið eftir að þeir tóku þátt í kosningunum? Það er fráleitt að halda því fram að fólk í Svíþjóð, Finnlandi og Noregi hafi ekkert vitað um ESB þegar það ákvað aðildina. Er almenningur í þessum þjóðum eitthvað gáfaðari en Íslendingar? Af hverju getum við ekki líka tekið ákvarðanir í þjóðaratkvæðagreiðslum?

eigum við ekki að fara í þessar viðræður uppá ganni,

27 Evrópuþjóðir telja hag sínum best borgið innan ESB, þar á meðal Danmörk, Svíþjþóð og Finnland. Mér finnst það gefa það sterklega til kynna að það sé bara nokkuð gott að vera í ESB og því eigum við að láta á það reyna.

vegna þess að stjórnarskráin okkar bannar þessa aðild

Þá breytum við henni líkt og aðrar þjóðir hafa gert.

„Aðild að ESB hefði í för með sér að við misstum forræðið yfir sjávarauðlindinni sem er mikilvægasta auðlind okkar.

Þarna gefur þú þér ákveðnar forsendur, sem er einmitt það sem ég var að kvarta yfir í pistlinum. Við vitum ekki hvernig fer með stjórn sjávarútvegsmála fyrr en við sækjum um aðild.

Einar Örn sendi inn - 11.04.07 09:56 - (Ummæli #9)

Sæll Einar,

verð að segja að ég er hjartanlega sammála þér. Er komin með leið á þessu þrasi um að við munum þá ekki lengur fá að ráða yfir sjávarútveginum okkar og það sé talað um þetta eins og að við séum að gefa allt frá okkur. Ég gerði nú einu sinni verkefni um ef að aðlid yrði hvort að það myndi hafa áhrif á landbúnað og svarið var hreint nei að það myndi ekki hafa áhrif þannig séð því að við myndum líkt og Finnland og Svíþjóð fá fram samninga sökum sértæks landbúnaðar, þetta held ég að myndi líka ganga í gegn með sjávarútveginn. Þurfum að vera víðsýnari og skoða kosti og galla og svo að sjálfsögðu leyfa þjóðinni að tjá sig um þessi mál en ekki nokkra aðila á þingi…

Oddný sendi inn - 11.04.07 10:12 - (Ummæli #10)

Einar. Það sem ég er að tala um er að við erum að kjósa fólk á þing af vissri ástæðu. Við erum að kjósa einstaklinga sem við treystum til að stjórna landinu og taka ákvarðanir fyrir okkar hönd.

Ekki tala um flokksystkini á þessu stigi máls þar sem ég er, vegna atburða síðasta árs, ekki svo viss um stöðu mína innan stjórnmála.

Ef samfylkingin er eina landið sem vill esb viðræður, gott og vel, alþingis kosningar eru á næsta leiti. Er þá ekki gefið mál að þeir (samfylkingin) eigi eftir að tróna á toppi ísjakans (?) … Þjóðin hlýtur að taka tillit til þess ef viljinn fyrir esb er þar.

Nefndin sem ég benti á í síðasta komennti var sett á laggirnar af engum öðrum en dabba kallinum þannig að þótt Eiríkur Bergmann og fleiri áróðursmenn telja Davíð Oddson hafa farið í fílu og þessvegna hafnað esb aðild … þá er ég ekki að kaupa það.

Ég myndi nú vilja áður en við förum að ganga í esb laga stjórnarskránna á margan annan hátt heldur en að opna landið fyrir lögum sem ísland hefur takmarkuð völd yfir. But thats just me.

majae sendi inn - 11.04.07 10:50 - (Ummæli #11)

Ef samfylkingin er eina landið sem vill esb viðræður, gott og vel, alþingis kosningar eru á næsta leiti. Er þá ekki gefið mál að þeir (samfylkingin) eigi eftir að tróna á toppi ísjakans (?) … Þjóðin hlýtur að taka tillit til þess ef viljinn fyrir esb er þar.

Nei, það er einfaldlega fullt af fólki sem vill hægri stefnu en LÍKA aðild að ESB. Pointið, sem virðist ekki vera að ná í gegn, er að þetta snýst ekki um flokkslínur. Harðir íhaldsmenn fara ekki að kjósa Samfylkinguna útaf ESB málum af því að þeir eru ósammála flokknum í svo mörgum öðrum málum. Þetta á ekki að vera flokkspólitískt.

Svo má líka benda á að í öðrum löndum er fólki líka borgað fyrir að sitja á þingi, en þar var samt sótt um ESB aðild og málið lagt í dóm kjósenda. Þú hefur ekki enn fært rök fyrir því af hverju við ættum ekki að gera það - fyrir utan þau rök að fólk sé of vitlaust til að ákveða þetta sjálft.

Ég myndi nú vilja áður en við förum að ganga í esb laga stjórnarskránna á margan annan hátt heldur en að opna landið fyrir lögum sem ísland hefur takmarkuð völd yfir. But thats just me.

Það er búið að gerast með EES. Breytingin við ESB er að við getum þá haft áhrif. Plús það að mörg þessara laga frá ESB gera það að verkum að við loksins drullumst til að gera eitthvað í þjóðþrifamálum sbr. þetta mál hér.

Einar Örn sendi inn - 11.04.07 11:12 - (Ummæli #12)

Annars ánægjulegt að þú sért ekki lengur í Sjálfstæðisflokknum. Sá flokkur er hvort eð er alltof stór. :-)

Einar Örn sendi inn - 11.04.07 11:19 - (Ummæli #13)

Sammála þér Einar, Flokkurinn á hana maju ekki skilið.

Ég held samt að þú hafir aðeins verið að misskilja mína meiningu, ég er á því að esb aðild íslands sé eitthvað sem er nánast óumflýjanlegt og ég er alveg viss um að við verðum komin þangað innan fárra ára. Sennilega verður þetta atriði orðið mjög heitt í umræðunni fyrir þarnæstu kosningar, en það er hinsvegar þannig frá mínum bæjardyrum séð að það ætti að fara í aðildarviðræður nema við ætlum okkur þar inn, og þangað til stjórnarskráin okkar leyfir þetta fullveldisafsal þá er tómt mál að ræða þetta, fyrst þarf að breyta stjórnarskránni þannig að þetta sé leyfilegt, það þarf svolítið mikið að gerast til það fáist í gegn, tvö þing, eða aukinn meirihluta, man ekki alveg hvort aukinn meirihluti á þingi sé nóg þannig að það þurfi ekki að fara í gegnum tvö þing. Það þarf fyrir mína parta að ræða þetta og framkvæma í réttri röð.

elmar sendi inn - 11.04.07 12:05 - (Ummæli #14)

Ég vill nú ekki meina að fólk sé of vitlaust til að ákveða þetta sjálft.

Alls ekki, en fólk er almennt ekkert að koma heim úr vinnunni og lesa sér til um esb á internetinu á kvöldin. Það eru kostir og gallar við esb eins og allt annað.

EES var auðvitað lögfestur 94 og mannréttindakafli stjórnarskráarinnar var stórbættur en það er nú meira en að segja það að gera breytingar á þessum lagabálki okkar, ég man ekki hversu lengi nefndin um innleiðingu ees stóð í stórræðum .. en það var ekkert smotterí. En þessar innri breytingar sem ég var að tala um hafa ekkert með stjórnvaldið sem slíkt að gera, heldur er ég að tala um atriði eins og trúarkirkju okkar íslendinga. Trúfrelsi my arse þegar börn eru skikkuð til kristnifræðis í barnaskóla.

Ég er bara á því að þjóðin á ekki að kjósa um þetta, látum fólkið sem við kjósum sjá um að þetta verði gert með réttum hætti og að allar hliðar verði skoðaðar ofaní kjölfið..

því eins og segir í auglýsingunni; once you pop, you can´t stop.

Á að vera að gera missó … þannig að ég byðst afsökunar ef þetta er eitthver leðja.. varð að koma öllum pælingunum niður áður en ég þarf að byrja aftur. :-)

majae sendi inn - 11.04.07 12:49 - (Ummæli #15)

Ég gef nú bara séð víða að sjávarútvegurinn bíði hnekki við inngöngu Íslands í ESB. Ingibjörg Sólrún sagði eitt sinn (minnir á fundi hjá LÍÚ) að fólk sem starfaði við sjávarútveg væri búið að minnka úr 16.000 niður í 10.000. Ef af ESB aðild yrði, og Ísland myndi ekki fá undanþágu út af sjávarútvegsmálum (sem þeir fá víst alls ekki, því þá geta önnur lönd gert svipaðar kröfur), þá myndu útlendingar eflaust koma að veiða talsvert í fiskmiðum okkar, og jafnframt kaupa af okkur minni fisk, sem myndi þýða að þessi 10.000 sem vinna við sjávarútveg yrðu kannski 6000 eftir fáein ár. Þar eru 4000 störf farin.

Mér gæti náttúrulega ekki verið meira sama um þessi sjávarútvegsmál persónulega, en svo virðist sem helstu umræður myndu stranda á þessu.

Það að fólk vilji ekki fara í umræðurnar er vissulega fáránlegt, og auðvitað þarf þær ef skoða á ESB aðild, því almenningur veit jafnaði ekkert um ESB og hvað aðild að ESB gerir fyrir okkur.

Halldór sendi inn - 11.04.07 13:07 - (Ummæli #16)

Einhver sagði einhverntíman að þetta með sjávarútveg þyrfti ekki að vera vandamál í sjálfur sér, (minnir að það hafi verið Össur) að stofnarnir við landið væru ekki flökkustofnar, staðbundin auðlind, og um þá gilti sama regla og um skógana í svíþjóð eða gasið í englandi, önnur aðildarlönd ættu ekki kröfu í þessar auðlindir. Síld, loðna og Kolmunni hér undanskilin þar sem að þessir stofnar eru flökkustofnar en um þá hefur verið samið í gegnum tíðina og um þá verður samið í framtíðinni. Eins má benda á að úthlutun á veiðiheimildum er byggð á aflareynslu 10-15 ára og við getum farið alveg aftur til ‘74 og það er enn mest megnis íslensk veiðireynsla við ísland. Ákvörðunin um kvóta, ef fiskistofnar hér vil land eru ekki staðbundnir er vissulega hjá esb en byggð á mati íslenskra sérfræðinga, ergo kvóta stærð ætti að vera svipuð. Halldór þér á ekki að vera sama um sjávarútvegsmál svona einfaldlega vegna þess að þaðan koma miklar gjaldeyristekjur fyrir ísland, og á einhvern hátt þarf að borga fyrir alla bílana, flatskjáina, tölvurnar og neysluvörurnar sem við njótum hér dagsdaglega.

elmar sendi inn - 11.04.07 13:31 - (Ummæli #17)

Ég tók svona til orða, auðvitað er manni ekki sama um þetta því landið fær talsverðar tekjur af sjávarútvegi, iðrast orða minna núna. Ég vil nú samt meina að fiskimálin okkar séu öðruvísi heldur en gasið í Englandi eða skógarnir í Svíþjóð.

En með inngöngu í ESB myndi verð á vörum sem þú nefndir væntanlega minnka, þar sem að tollar yrðu jú afnumdir, gerir innflutning á téðum vörum auðveldari, og setur pressu á kaupmenn til að vera ekki að okra á landanum. Þar með yrði auðveldara að kaupa Medion tölvurnar, Renault bílana og Philips sjónvörpin :-)

Halldór sendi inn - 11.04.07 14:40 - (Ummæli #18)

Það er alveg hárrétt Halldór, við erum greinilega sammála, en þetta með fiskinn okkar, þá var ég að vitna í Össur, eða Halldór Ásgrímsson, man bara ekki hvor þeirra talaði um þetta. En samkvæmt því sem þar var sagt, þá þarf bara að sanna að fiskistofnarnir okkar séu staðbundnir og þá gildi aðrar reglur en um aðra fiskistofna við strendur Evrópu. Ég mun seint telja sjálfann mig einhvern sérfræðing hvorki í ESB aðild eða einhverju öðru, ég segi bara eins og mér finnst. Síðan verða aðrir að meta það hvort það sé eitthvað bull eða ekki. Hef oft verið staðinn að því að hafa rangt fyrir mér. Bestu kveðjur. Elmar

elmar sendi inn - 11.04.07 14:46 - (Ummæli #19)
Senda inn ummæli

Athugið að það tekur smá tíma að hlaða síðuna aftur eftir að ýtt hefur verið á "Staðfesta".

Hægt er að nota HTML kóða í ummælunum. Hægt er að nota a href, b, br, p, strong, em, ul, li og blockquote

Ég áskil mér allan rétt til að eyða út ummælum, sem eru á einhvern hátt móðgandi, hvort sem það er gagnvart mér sjálfum eða öðrum. Þetta á sérstaklega við um nafnlaus ummæli.

Nafn:


Tölvupóstur (ath. póstfangið birtist ekki á síðunni):


Heimasíða (ekki nauðsynlegt):
:smile: :biggrin: :biggrin2: :blush: :confused: :laugh:

:mad: :rolleyes: :shock: :sad: :tongue: :wink:

Ummæli:


Muna upplýsingar? -


EOE.is:

Blaður um hagfræði, stjórnmál, íþróttir, netið og mín einkamál.

Nýjustu Flickr myndirnar

Scriptless Flickr Badge
Scriptless Flickr Badge

Á þessum degi árið

2005

Leit:

Síðustu ummæli

  • elmar: Það er alveg hárrétt Halldór, við erum greinilega ...[Skoða]
  • Halldór: Ég tók svona til orða, auðvitað er manni ekki sama ...[Skoða]
  • elmar: Einhver sagði einhverntíman að þetta með sjávarútv ...[Skoða]
  • Halldór: Ég gef nú bara séð víða að sjávarútvegurinn bíði h ...[Skoða]
  • majae: Ég vill nú ekki meina að fólk sé of vitlaust til a ...[Skoða]
  • elmar: Sammála þér Einar, Flokkurinn á hana maju ekki ski ...[Skoða]
  • Einar Örn: Annars ánægjulegt að þú sért ekki lengur í Sjálfst ...[Skoða]
  • Einar Örn: >Ef samfylkingin er eina landið sem vill esb viðræ ...[Skoða]
  • majae: Einar. Það sem ég er að tala um er að við erum að ...[Skoða]
  • Oddný: Sæll Einar, verð að segja að ég er hjartanlega s ...[Skoða]

Gamalt:



Ég nota MT 3.33

.